143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

mótmæli atvinnulífsins við slitum aðildarviðræðna við ESB.

[17:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna til fjögurra frétta sem birst hafa í Ríkisútvarpinu síðustu daga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Formaður Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir þá ákvörðun stjórnvalda að ætla að draga til baka aðildarumsókn Íslands gagnvart Evrópusambandinu; með því sé búið að loka einum möguleika sem liggi fyrir í peningamálum og aðrar áætlanir liggi ekki fyrir.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu gæti skaðað hagsmuni íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri, segir Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs.“

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að með þeirri ákvörðun að slíta viðræðunum fari ríkisstjórnin gegn stórum hluta iðnfyrirtækja.

Áfram segir:

„Félag atvinnurekenda mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarflokkanna um að slíta aðildarviðræðum við ESB. Í ályktun stjórnar segir að ákvörðunin sé misráðin, hún sé skaðleg íslenskum fyrirtækjum og loki augljósum valkostum í efnahagsmálum.“

Og enn segir:

„Forstjórar tveggja stórra alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, Marel og CCP, gagnrýna þá ákvörðun að draga til baka aðildarumsókn gagnvart Evrópusambandinu.“

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra fer með málefni viðskiptalífsins og iðnaðarins hér í landi. Ég vil því spyrja hana í ljósi viðbragða þessara aðila og í raun talsmanna alls atvinnulífsins: Heyrir þessi ríkisstjórn ekki hvað verið er að segja? Menn hjá þessari ríkisstjórn eru tilbúnir að koma og baða sig í ljósi þessara fyrirtækja við verðlaunaafhendingar og viðurkenningarathafnir, en svo þegar kemur að stórum málum heyra menn ekki orð af því sem sagt er.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra sem stendur að því með þessari ríkisstjórn að leggja fram tillögu um að slíta aðildarviðræðum, sem allir þessir aðilar hér mótmæla, hvort það standi í alvörunni (Forseti hringir.) til af hennar hálfu að styðja það og fylgja því alla leið í ljósi þeirra athugasemda sem komið hafa fram?