143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þess hefur verið óskað að þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra verði tekin af dagskrá. Virðulegur forseti hefur lýst því yfir að hann telji þingsályktunartillöguna þingtæka en hann hefur ekki svarað því hvort hann vilji taka hana af dagskrá þingfundar í dag.

Nú má vera að hann vilji það ekki eða treysti sér ekki til þess. En ég spyr hæstv. forseta hvort hann treysti sér þá ekki til þess að kalla til sín flytjanda málsins, hæstv. utanríkisráðherra, og fara yfir greinargerðina með honum og verja með staðfestum hætti virðingu og æru þeirra þingmanna sem vegið er að í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni. Það held ég að sé krafa sem hv. þingmenn hljóta að eiga á hæstv. forseta og embættið.