143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

úrskurður forseta um stjórnartillögu.

[13:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að taka undir tillögu þá sem kom frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni um að við mundum breyta dagskránni þar að lútandi að liður nr. 5, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, verði tekinn til umræðu strax á eftir liðnum sérstök umræða. Það er alveg ljóst að með þessari tillögu kemur þingið til móts við meirihlutavilja þjóðarinnar. Samkvæmt skoðanakönnuninni sem hv. þingmaður nefndi áðan vilja um 76% þeirra sem eru spurðir fá málið í þjóðaratkvæði, þar á meðal yfirgnæfandi meiri hluti kjósenda bæði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það væri gagnlegt ef við mundum hlusta á það sem fólk kallar eftir og bregðast við því áður en það verður of seint.