143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

þingleg meðferð skýrslu um ESB.

[16:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að koma hér upp og bregðast við því sem til hans var beint, en ég verð þó að viðurkenna að oft hefur mér nú þótt hv. þm. Birgir Ármannsson vera skýrari í svörum sínum [Hlátur í þingsal.] en hann var hér áðan.

Það er út af fyrir sig rétt hjá formanni utanríkismálanefndar, og það þekki ég sjálfur vel á eigin skinni, að formaður nefndarinnar er ekki einráður um það hvernig mál eru afgreidd og hvernig vinnubrögð eru. En ég vil þó segja það að ég reyndi eftir fremsta megni þegar ég gegndi formennsku þar að eiga gott samráð við stjórnarandstöðuna, alla vega um afgreiðslu mála og vinnubrögð, þó að menn væru ekki alltaf sammála um efni máls. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra kinkar kolli yfir því, svona á ská.

Ég vil hvetja hv. formann utanríkismálanefndar til að segja okkur skýrt hver ásetningur hans er eða að minnsta kosti hvernig hann mundi vilja beita sér í þessu máli og það væri látið á það reyna innan nefndarinnar hver niðurstaðan verður.

Af því að menn eru að tala um að það þurfi að bíða eftir kvöldverðarhléi til (Forseti hringir.) þess að taka af skarið með frekari umræður mætti hugsanlega leysa það hvenær það verður með (Forseti hringir.) því að innleiða sömu reglur um kvöldmatarhlé og gilda um umræður um þingsályktunartillögu og hafa fyrra kvöldverðarhlé og síðara kvöldverðarhlé, og þá er hægt að taka hið fyrra fljótlega.