143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað það sé í þessari skýrslu sem fram hefur komið — og blekið var varla þornað á henni þegar ríkisstjórnin ákvað í skyndi að leggja fram tillögu hér til þingsins um að slíta viðræðum við Evrópusambandið — sem rökstyðji það að grípa til svona neyðarráðstöfunar eins og leit út fyrir. Eru einhverjar slíkar upplýsingar í skýrslunni að í einum grænum hvelli hafi þurft að henda inn tillögu um að slíta viðræðum? Ég segi þetta sérstaklega í ljósi þess að í stjórnarsáttmála þeirra flokka sem nú styðja þessa ríkisstjórn segir að gert verði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Hvergi er talað um að slíta viðræðum, hvorki í landsfundarsamþykkt Framsóknarflokksins né Sjálfstæðisflokksins er talað um að slíta viðræðum, heldur að hætta viðræðum eða að gera hlé á þeim.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki bakland sinna landsfunda (Forseti hringir.) til að ganga svona langt þannig að eitthvað hlýtur það að vera í skýrslunni sem hefur valdið því að menn telji það svona (Forseti hringir.) mikilvægt að grípa til annarrar eins neyðarráðstöfunar og að slíta viðræðunum og það strax.