143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[22:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ein hugmynd að fá leiðsögn frá þjóðinni í þessum efnum, það er auðvitað gert og þekkt víða að spurningar sem bornar eru upp í þjóðaratkvæðagreiðslum eða í íbúakosningum eða annars staðar, eru ekki endilega bara já eða nei við einhverri tiltekinni spurningu. Það er líka hægt að bera upp spurningar til að fá leiðsögn frá þjóðinni um til dæmis hluti af þessu tagi, hvaða mörk væri þarna stuðst við.

Miðað við þessar lágu tölur í Sviss, sem miðast að vísu við land með miklu fleiri íbúa, værum við löngu komin upp fyrir þau mörk á Íslandi með þessa áskorun núna, það er sennilega yfir tífaldur sá fjöldi sem þyrfti til ef 0,7% af kosningarbærum mönnum gætu krafist slíkrar atkvæðagreiðslu. Auðvitað hefur sá möguleiki verið ræddur að skilgreindur, en nokkuð stór minni hluti þingsins gæti líka komið þessu til leiðar, en það er afar blóðugt að hafa hvorugt eins og dæmin sanna núna.