143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[23:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa komið fram ítrekaðar óskir frá fjölmörgum þingmönnum til hæstv. forseta um að ljúka umræðu um þetta mál nú og slíta þingfundi, taka þá til við það á næsta þingfundi væntanlega. Forseti hefur sagt að hann telji ekki óeðlilegt að halda áfram enn um sinn, en hefur ekki svarað því nákvæmlega hversu lengi hann ætlar að halda þessum fundi áfram.

Ég vil af því tilefni fara fram á það við forseta að hann upplýsi þingheim um það hvað þetta enn um sinn á að standa lengi, hvenær hann hyggst ljúka þessum þingfundi. Ég ítreka þau sjónarmið mín, eins og margra annarra þingmanna hér í kvöld, að réttast sé, við þær aðstæður sem nú eru uppi, að hætta þessum þingfundi og taka þá til við málið á næsta þingfundi eða síðar ef svo vill verða.