143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég nú segja, og um það var ég að reyna að eiga orðastað við hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra, að veldu menn þá leið sem við leggjum til í tillögu okkar þá er allur ómöguleiki horfinn sem færð hafa verið rök fyrir; að ella kynni ríkisstjórn og flokkar sem eru andvígir aðild að Evrópusambandinu að lúta þeim þjóðarvilja að ræða engu að síður við Evrópusambandið.

Ég tel að þetta sé mjög hættuleg röksemdafærsla ef menn eru stuðningsmenn beins lýðræðis yfirhöfuð. Ég sé ekki hvernig menn ætla yfirleitt að vera stuðningsmenn þess að beint lýðræði sé ástundað í stórum og mikilvægum málum ef þeir stilla því upp og takmarka það þannig að þó skuli aldrei kjósa ef hætta sé á því að sitjandi ríkisstjórn eða sitjandi meiri hluti í sveitarstjórn fái niðurstöðu sem sé þeim ekki að skapi. Þá er eiginlega orðið hreinlegra fyrir menn að segja að þeir séu nú stuðningsmenn beins lýðræðis innan gæsalappa, með takmörkunum, með skilyrðum, með þeirri tryggingu að niðurstaðan verð þeim aldrei á móti skapi og það er ekki neitt, þá er það bara brotið. Ég gef ekkert fyrir þetta auk þess sem ég tel að það væri náttúrlega tæknilega og með ýmsum öðrum hætti hægt að leysa það mál að búa þá þannig um viðræðurnar að ráðherrar þyrftu ekki að vera þar gegn sannfæringu sinni.