143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil halda áfram að vitna í hæstv. ráðherra, nú hæstv iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur, sem segir, með leyfi forseta:

„Það sem mér þykir mestu máli skipta er að þjóðin fái að greiða um það atkvæði hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. Og ég treysti þjóðinni til að taka upplýsta ákvörðun. Vegna þess hversu mikið ágreiningsmál þetta er …“

Nú erum við hv. þingmaður ekki á sömu skoðun í þessu máli. Ég tel að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins En hvaða áhrif heldur hv. þingmaður að svona yfirlýsingar sem ekkert innihald er í hafi á almenning í landinu? Getur þetta haft þau áhrif að menn vilji frekar skoða hvað gæti falist í því að ganga í Evrópusambandið, þeir sem hafa kannski frekar verið á því að við ættum að vera utan þess? Í hvaða átt heldur hv. þingmaður að svona svik sveigi kjósendur?