143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[01:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit að það gleður hv. þm. Pál Jóhann Pálsson að sá sem hér stendur er fyrrverandi togarasjómaður og vanur að standa hundavaktina. Hann kveinkar sér ekki undan því. Það væri hins vegar mjög gott að fá svör vegna þess að í mínum þingflokki eru hv. þingmenn sem mundu gjarnan vilja blanda sér í þessa umræðu en eru foreldrar ungra barna og eyða þess vegna tímanum með þeim þegar færi gefst. Það væri mjög gott að fá það upplýst hvort til standi að þeir tali síðar í nótt eða hvort forseti hyggist fresta fundi og halda honum áfram kl. hálfellefu í fyrramálið, sem ég held að væri farsælla úr því sem komið er. Það er fullt tilefni til þess að fá frammistöðumat hæstv. forseta á framvindu umræðunnar.