143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, það er sérkennilegt að í gærkvöldi var jafnvel verið að boða það að mælt yrði fyrir tillögunni sjálfri um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið að næturlagi. Ég veit að virðulegur forseti hlýtur að vera mér sammála um að enginn bragur er á slíkum þingstörfum, að hv. þingmenn séu hér á þvælingi af því að þeir vissu ekki fyrr en klukkan var farin að ganga tvö í nótt að ekki yrði mælt fyrir tillögunni til að mynda klukkan fimm í nótt.

Það er skiljanlegt að hér séu næturfundir þegar líða fer að lokum þingstarfa en þetta hlýtur að vera hægt að skipuleggja betur. Ég er ansi hrædd um að þegar óvissan er svona mikil þróist þingstörfin með neikvæðum hætti. Það þekkjum við auðvitað sem hér höfum verið undanfarin ár að tilhneigingin virðist vera að umræðan fer þá að snúast um þingstörfin en ekki efni málsins. Það hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir það. Ég skora á virðulegan forseta að taka frumkvæði í því máli að leggja línur fyrir næstu vikur í þinginu (Forseti hringir.) þannig að við getum fremur eytt tíma okkar í pontu í að eiga efnislegar umræður og vitum hvert við erum að fara.