143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

dagskrá fundarins og kvöldfundir.

[10:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum ólíkir einstaklingar og það kann vel að vera að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni finnist í lagi að láta koma að sér með athugasemdir og leggja blað fyrir sig í ræðustól meðan menn eru hér að gera athugasemdir við málflutning þeirra sem eru í ræðustólnum. Það má líka vel vera að í framhaldinu af slíkum atburði kunni hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vel við það að menn standi hér á hliðarlínunni og flissi og segi honum að róa sig þegar hann gerir við þetta athugasemdir. Það kann vel að vera, en mér líkaði það ekki. Þess vegna snöggreiddist ég í gær. Á því er ég búin að biðjast afsökunar, ég er búin að því og ég vona að menn hafi náð því, meðtekið það og tekið við því.

Hvað hæstv. fjármálaráðherra gerir síðan hvað sína framkomu varðar og sinn hlut í þessari snerru er alfarið hans mál. Hvað mig varðar er þetta mál búið en ég vona að það verði okkur lærdómur um það að við erum ólík og við kunnum ekki öll við framkomu sem (Forseti hringir.) má líkja við gauragang. Við gerum það ekki og þess vegna ber okkur að koma fram hér (Forseti hringir.) hvert við annað af virðingu og ég mun leggja mig fram um að gera það sjálf.