143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og hvet hann til að halda áfram að tala um þetta vegna þess að mér finnst þetta áhugaverður málaflokkur.

Þá velti ég fyrir mér mataröryggi Íslands. Mér skilst af öðrum hv. þingmönnum að mataröryggi á Íslandi sé einungis í kringum 50%, þ.e. að við getum með innlendri framleiðslu nært um 50% þjóðarinnar. Það er víst ekkert nýtt og sennilega ekkert sem við getum endilega mikið gert í þannig séð. Þó er mikilvægt að hafa þetta mataröryggi sem mest.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti eitthvað frætt mig og aðra um það hvernig hægt sé að auka þetta viðskiptafrelsi, þ.e. með fríverslunarsamningum o.s.frv., en samt sem áður halda innviðum landbúnaðar þannig að við tryggjum sem mest mataröryggi ef ske kynni að einhverjar stórfelldar náttúruhamfarir ættu sér stað, stríð eða eitthvað því um líkt, svona langtímaáhyggjuefni þar sem stórir hlutir geta gerst yfir langan tíma.