143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðuna. Mér finnst ánægjulegt að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi lagt fram tillögu af þessu tagi vegna þess að þar er auðvitað um að ræða alvörutilraun til að nálgast einhverja lausn í því hvernig farið verður með þessi mál.

Ég segi eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan, ég get ekki tjáð mig um þessa tillögu eða ætla ekki að gera það á þessu stigi en ég er sannfærður um að komi hún til meðferðar í utanríkismálanefnd verði henni veitt viðeigandi athygli og komi þar til umræðu með þeim hætti sem ástæða er til. Þetta er jákvætt innlegg í þessa umræðu og ber að fagna því.

Ég vildi spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem átti sæti í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, hvort það hafi að hennar mati valdið erfiðleikum, tæknilegum eða pólitískum, að annar ríkisstjórnarflokkurinn stefndi ekki að inngöngu í ESB og var satt að segja mjög andvígur mörgum þáttum aðildarinnar. Höfðu þær kringumstæður með einhverjum hætti áhrif á ferlið eða töfðu fyrir því að hægt yrði að opna einstaka samningskafla eða komast áleiðis með einstök mál?