143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst þetta með sérlausnirnar. Það kom út skýrsla fyrir ári síðan um gang viðræðnanna. Hún er mjög góð, kom út í apríl í fyrra. Mér finnst munurinn á henni og skýrslunni sem við höfum verið að ræða á undanförnum dögum vera sá að í skýrslunni sem kom út fyrir ári var sagt að glasið væri hálffullt og það væri vel hægt að ná ýmsum lausnum og rakið ágætlega hvernig það væri hægt. Það er byggt á samtölum og fundum með einstökum aðildarríkjum, erindrekum þeirra og í viðræðunefndinni og á fundum viðræðunefndanna.

Skýrslan núna segir að glasið sé hálftómt og segir ólíklegt að við náum sérlausnum. Mér finnst þetta einfaldlega vera spurning um það hvort við erum bjartsýn á að ná samningum eða ekki. Við erum með góðan málstað, mjög góðan málstað og við getum vel náð honum í gegn. En ef menn vilja ekki undir neinum kringumstæðum ganga í Evrópusambandið, alveg sama hvað, er best að menn segi það og við tökum umræðuna á þeim grundvelli.

Varðandi gjaldmiðilinn þá mundi ég aldrei segja að evran væri töfralausn eða eitthvað sem væri einfaldlega hægt að ganga inn í og öll okkar vandamál mundu leysast. En ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, og Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa áttað sig á því í ályktunum sínum, að við mörkum stefnu í þessu, að við segjum hvert við ætlum að fara.

Höfuðvandi íslensks efnahagslífs hefur verið skortur á trausti, m.a. á gjaldmiðlinum sem hefur fallið um 99 komma eitthvað prósent síðan hann varð sjálfstæður. Hann hefur hríðfallið í virði. Það lýsir viðhorfi umheimsins til þessa gjaldmiðils. Það er heljarinnar verkefni fyrir íslenskt efnahagslíf, fyrir Ísland, eina þjóða og án fordæma, að reyna að byggja upp traust á svona litlum gjaldmiðli.

Því er haldið fram að í myntsamstarfi gætum við byggt upp (Forseti hringir.) traust á efnahagslífinu, öðlast þann stöðugleika sem (Forseti hringir.) við þurfum — já, á kostnað sveigjanleika — en til þess að byggja upp fjölbreytt (Forseti hringir.) atvinnulíf sem aftur hjálpar okkur að skapa tekjur fyrir landið.