143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Hv. forseti. Virðulegur þingmaður talar um lægri vexti með evrunni. Ég fór að skoða hvernig vextirnir væru á Kýpur, í landi sem hefði farið illa út úr þessari kreppu. Þar eru vextir af íbúðalánum, samkvæmt Bank of Cyprus, 7% til 15 ára og verðbólgan er mínus 2,8% í janúar. Það þýðir hátt í 10% raunvexti. Ég hugsa að við sækjumst ekki eftir því. Samt eru þeir með evruna.

Þegar við sóttum um var mikil samleitni í vaxtastigi á evrusvæðinu, það er alveg rétt en sú forsenda hefur breyst. Við höfum séð á evrukreppunni að til að fást við afleiðingar þessarar kreppu hefur hver þjóð þurft að bera það vaxtastig sem henni ber, hún uppsker eins og hún sáir í þeim efnum.

Varðandi gjaldmiðilskreppu, að hér hafi orðið gjaldmiðilskreppa, varð líka gjaldmiðilskreppa innan evrusvæðisins. Ég veit ekki hvort mönnum er kunnugt um það, það varð fjármagnsflótti frá Grikklandi og Kýpur og öðrum löndum. Seðlabanki Evrópu þurfti að veita bönkum í þessum löndum lán til að löndin mundu ekki tæmast af evrum, af því að þeir sem áttu lausa peninga vildu taka þá og setja í önnur hagkerfi, fara til dæmis með þá til Sviss eða Bretlands, eitthvert þangað sem peningarnir væru óhultir, vextir væru hærri, hagvöxtur meiri í framtíðinni. Þá er ríkið alltaf að taka meiri lán hjá Evrópska seðlabankanum. Þetta gekk svo langt að Suður-Evrópa var farin að skulda Norður-Evrópu eða Þýskalandi alveg stórkostlegar fjárhæðir. Þetta var gjaldmiðilskreppa evrunnar. Hún er ekki enn þá leyst, það er að vísu aðeins að ganga saman aftur sem betur fer. En ég held að það sé langt frá því að við getum uppskorið traust í efnahagslífi okkar með því einu að taka upp gjaldmiðil sem nýtur trausts. Við þurfum sjálf að hegða okkur á þann hátt að okkur sé treyst í okkar efnahagsmálum.