143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég held að eins og hér hefur komið fram hafi hæstv. forseti bersýnilega lagt sig fram um að reyna að ná samkomulagi um framhald og framgang þess máls sem hér er á dagskránni og þeirra mála sem eru á dagskránni nr. 3, 4 og 5. Reyndar var ætlunin að það yrði gert í nefndaviku, tíminn yrði nýttur þá, en það gekk ekki eftir. Síðan var haldinn hér áðan fundur formanna stjórnmálaflokkanna með forseta til að reyna að freista þess að fullnusta það sem að var stefnt.

Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst mjög dapurt að það hafi ekki leitt til neins. Þetta er mál sem er stórt í sniðum og er umdeilt í samfélaginu. Einhverjir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins orðuðu það þannig fyrir kosningar að þetta væri mál sem klyfi stjórnmálaflokka og jafnvel fjölskyldur og þess vegna er full ástæða til að reyna að ná bærilegri sátt um málsmeðferð. Ýmsir hafa lagt á sig (Forseti hringir.) í því efni með tillöguflutningi og öðru slíku í þinginu. Það er því mjög dapurlegt að (Forseti hringir.) forustumenn stjórnarflokkanna skuli ekki reyna að taka í þær (Forseti hringir.) útréttu hendur og ná samkomulagi a.m.k. um málsmeðferðina.