143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var allnokkuð kostulegt að heyra að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra telja það meiri háttar frétt að þingnefndir geti fjallað um mál sem lögð eru fram í þinginu og jafnvel breytt þeim. Síðan hvenær er það frétt? Hefur það ekki alltaf verið svoleiðis? Þetta verður alltaf einkennilegra og einkennilegra.

Ég vil eins og aðrir hvetja forseta til að fresta fundi. Ég vil enn fremur hvetja forseta til að beita sér fyrir því að mál sem er núna nr. 6 á dagskrá verði tekið fyrst fyrir á morgun. Þá mundu hefjast eðlileg þingstörf og hægt að klára það mikla mál sem snertir allt fólk í landinu. Svo legg ég eindregið til að þeir ungu menn sem fara með (Forseti hringir.) stjórn landsins hlusti á fólkið í landinu og átti sig á því að þeir eru að svíkja loforð(Forseti hringir.) sem þeir gáfu fyrir kosningar og það á fólk ekki að gera.