143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er það ekki stjórnmálamannsins að segja bæði og? Þetta er nokkuð flókið samspil held ég. Það er alveg ljóst að stjórnmálamenn hafa ekki notið mikillar virðingar og það er gjarnan sagt að þeir standi aldrei við neitt sem þeir segja. Það getur verið mjög misjafnlega erfitt að uppfylla loforð sem gefin eru, eins og með skuldaniðurfellinguna, átti hún ekki að vera 300 milljarðar? Nú er verið að tala um að hún sé 100 milljarðar. Menn eru þó alla vega að reyna eitthvað til að uppfylla það loforð þótt loforðið sé ekki uppfyllt.

En þetta er bara svo skýrt í þessu tilfelli. Loforðin voru svo skýr, þau voru svo einföld og þess vegna kemur fólk og mótmælir. Og auðvitað held ég að það sé að mótmæla þessari tillögu ríkisstjórnarinnar en það er náttúrlega líka að hvetja það fólk sem situr hérna inni og meiri hlutann sem hefur 60% á þingi til þess að gera þeim sem leggja tillöguna fram ómögulegt að svíkja loforðið eins og menn virðast stefna óðfluga að.

Mér finnst mótmælin núna dálítið öðruvísi en þau voru gjarnan á síðasta kjörtímabili. Mér finnst þau beinast meira bókstaflega að þessu eina tiltekna atriði heldur en gjarnan þegar verið var að setja hér þing, þau beindust meira að þinginu sjálfu. Það er svolítið erfitt að spjalla um þetta í ræðustól en ég geri það sem ég get.