143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það kom fram í framsöguræðu minni með nefndaráliti utanríkismálanefndar sumarið 2009, þá lýsti ég þeirri skoðun minni og hún kom fram frá fleirum úr mínum þingflokki, að ef fram kæmi í viðræðunum, í viðræðuferlinu sjálfu, eitthvað það sem gæfi tilefni til þess eða væri óyggjandi á þann hátt að þær forsendur sem við lögðum til grundvallar í nefndarálitinu næðust ekki áskildum við okkur rétt til að hætta viðræðum. Í mínum huga hefur enn þá ekkert slíkt komið fram. Það hefur ekki verið sagt: Nei, þessi lausn sem þið farið fram á gengur ekki. Það sem við sögðum og ég sagði í umræddri framsöguræðu að gæti orðið tilefni til þess að hætta viðræðunum hefur aldrei komið fram.

Um spurninguna um það hvort það mundi breyta afstöðu minni þá hef ég mótað mér skoðun á Evrópusambandinu út frá mörgum þáttum, ekki bara sjávarútvegsmálum eða landbúnaðarmálum. Ég hef líka horft á umhverfismál, vinnuréttarmál, félagsmál, (Forseti hringir.) gjaldmiðilsmál, þannig að sjávarútvegsmál ein og sér (Forseti hringir.) mundu ekki endilega breyta afstöðu minni. En ég vil fá að sjá heildarniðurstöðuna.