143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:13]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Ég vil enn á ný þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er viss hætta á því að fólk verði enn reiðara og óánægðara og snúist gegn þessu öllu saman og endi með því að vilja jafnvel bara ganga í Evrópusambandið sem væri ekki gott að mínu mati.

Ég vona, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, heitt og innilega að þegar málið kemst til nefndar muni það fá að þroskast og dafna og taka hugsanlega einhverjum breytingum. Ég get ekki sagt til um það, ég geri þó frekar ráð fyrir því en ekki. Þessar tillögur allar þrjár eiga að fara saman til nefndar og verða ræddar þar saman. Á sama tíma mun fólk, bæði við sem hér sitjum og aðrir úti í þjóðfélaginu, fá tíma til að skoða þetta betur og fara betur yfir skýrsluna. Ég hugsa að umræðan fari kannski úr þessum hártogunarstíl í efnislegri umræðu (Forseti hringir.) þegar á líður.

Tillaga vinstri grænna er ágæt (Forseti hringir.) en samkvæmt því sem ég hef heyrt (Forseti hringir.) óskar Evrópusambandið eftir því að (Forseti hringir.) við tökum ákvörðun (Forseti hringir.) þannig að ég veit ekki hvort hún gengur upp.