143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[19:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir greinargóð svör. Nú á hv. þingmaður sæti í utanríkismálanefnd og þetta mál kemur að sjálfsögðu til umfjöllunar þar og líka þær aðrar tillögur sem einnig eru á dagskránni, tillaga frá þingmönnum Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar annars vegar og hins vegar tillaga frá þingmönnum Vinstri grænna.

Hver er afstaða þingmannsins á vettvangi utanríkismálanefndar? Hvernig sér hann vinnuna þar fyrir sér, t.d. að því er varðar umsagnir, gesti o.s.frv. og umræðu á þeim vettvangi? Telur hann að taka eigi allar þessar þrjár tillögur samtímis til efnislegrar meðferðar þar þannig að nefndin fari yfir þær og sendi þær saman til umsagnar, fái umsagnir og gesti að því er varðar þær allar þrjár og reyni síðan að vinna sig fram til niðurstöðu á grundvelli þeirra allra? Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé sammála því að reynt verði að tala fyrir slíku vinnulagi á vettvangi utanríkismálanefndar.