143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þó að ég væri hér í þinghúsinu að fylgjast með umræðunum var ég að reyna að lesa fjölmiðla landsins. Ég sé á mbl.is í dag frétt um að Færeyjar, Noregur og ESB hafi samið um makríl. Það tengist svolítið ESB-umræðunni þannig að mér finnst eðlilegt að hæstv. forseti hlutist til um það, og ég sé að hæstv. utanríkisráðherra er hér í salnum, að við fáum skýr svör um hvað er að gerast. Við höfum staðið mjög þétt saman, allir þingmenn, bæði stjórn og stjórnarandstaða, um að verja hagsmuni okkar í makrílmálinu og vissum ekki betur en slitnað hefði upp úr vegna ágreinings við Noreg. Síðan kemur þessi frétt núna og kann að vera röng en þar er vitnað til Færeyja og talað um að skrifa eigi undir þessa samninga í kvöld.

Mér finnst mjög mikilvægt að upplýsingar komi hingað inn í þingið þannig að við fáum að fylgjast með hvað er að gerast ef þessu verður með einhverjum hætti svarað formlega. Auðvitað er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga að við fáum annaðhvort góða samninga eða fáum rúmar heimildir til að veiða makrílinn.