143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég er mjög sammála hv. þingmanni um það. Ég er ekki eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins í öllu því sem það tekur sér fyrir hendur. Ég held að þar hafi verið teknar misjafnar ákvarðanir o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að vera þátttakendur í þeirri ákvörðunartöku. Mér fannst mjög eftirtektarvert, af því að Grikkland er nefnt hér, að í miðjum þrengingum Grikkja og upp úr þeim miklu hörmungum sem þeir gengu í gegnum var það þó svo að skoðanakannanir leiddu í ljós að 80% Grikkja vildu samt sem áður halda evrunni. Mér finnst það vera nokkur vitnisburður alltént um tilfinningar þeirra til þessa samstarfs og þess sem það hefur haft í för með sér.