143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[11:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er snjöll ræðukona og kann allar tæknibrellur þrætulistarinnar. Hún var spurð einnar einfaldrar spurningar. Spurningin var þessi: Getur hv. þingmaður bent á eina aðlögun sem fyrri ríkisstjórn réðst í vegna aðildarviðræðnanna? Ég kýs að taka og túlka þögn hennar við þeirri spurningu sem nei, en ég skora á hv. þingmann að leggja fram fyrirspurn um það.

Hv. þingmaður segir síðan að ekki sé hægt að fá neinar varanlegar undanþágur. Síst allra þingkvenna og -manna vil ég ásaka hv. þingmann um að lesa ekki nógu rækilega þau plögg sem fyrir hana eru lögð, en ræða hennar áðan var á grundvelli skýrslu Hagfræðistofnunar og það kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar að í einu tilteknu smáu tilviki þurftu Íslendingar að ná fram undanþágu, varanlegri undanþágu, ekki sérlausn, og fengu hana. Þetta getur hv. þingmaður lesið í einum viðaukanum. Ég hvet hv. þingmann til þess áður en hún leggst á koddann í kvöld að lesa svolítið betur viðaukana.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort hægt sé að fá undanþágu fyrir heil svið. Það er náttúrlega frægt dæmi um það. Það eru ríki sem hafa undanþágu frá sameiginlega gjaldmiðlinum til dæmis. En það er ekki málið. Ég get fallist á það sem hv. þingmaður sagði, að það væri ekki í samræmi við meginniðurstöðu skýrslunnar og það kæmi henni á óvart að ekki væri útilokað að hægt væri að fá undanþágu frá heilum sameiginlegum sviðum. Það kom mér á óvart. En þetta var óvart upplýsing sem var færð fram í utanríkismálanefnd af þeim manni sem hefur hvað mest vit á þessu og hennar eigin flokkur, og reyndar fleiri flokkar, hafa oft kallað fram til vitnis um Evrópumálin. Svona liggur í þessu. Það er nefnilega þannig að í samningum geta menn náð öllum fjandanum fram ef þeir leggja sig nógu mikið fram um það og lengi skal manninn reyna, herra forseti. En ég ætla ekki að meira á hæstv. forseta og ætla nú að hverfa úr ræðustóli.