143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu þar sem hún fór yfir stöðuna í þessu máli. Ég verð að segja fyrir mína parta, herra forseti, að það var furðulegt hvernig þetta mál bar að hér í þinginu. Þetta er mál sem er þvert á loforð, skýr loforð annars stjórnarflokksins og í andstöðu við orð sem hæstv. forsætisráðherra lét falla eftir kosningar. Og þegar maður les skýrsluna sem Hagfræðistofnun vann er ekkert þar sem bendir til þess að það að klára aðildarviðræðurnar ógni hagsmunum Íslands á einhvern hátt. Sjávarútvegurinn er náttúrlega grundvallaratvinnugrein og þar hljótum við að gæta okkar hagsmuna eins vel og við getum og fórnum ekki meiri hagsmunum fyrir minni. Varðandi landbúnaðinn fannst mér nokkuð gefið undir fótinn með að íslenskur landbúnaður gæti unað mjög vel við aðildarsamninginn. Ég gat ekki séð að það væri neitt sem neytendur ættu að hræðast, þvert á móti.

Kannski er stærsta hagsmunamálið í ákveðnu samhengi evran sem er ekki rædd í skýrslunni. Það er því ekkert í skýrslunni sem gefur til kynna að ríkir hagsmunir séu til þess að leggja tillöguna fram á þennan hátt. Það var ekki einu sinni talað við formenn minni hlutans og rætt við þá og sagt: Hér er von á tíðindum.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að fílósófera aðeins við hv. þingmann og spyrja í ljósi þeirrar góðu yfirferðar sem hún fór í um (Forseti hringir.) hvað þetta er mikilvægt mál: Hvaða hagsmunir liggi að baki þessari skjótu framlagningu (Forseti hringir.) tillögu um að slíta viðræðunum?