143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ef ég vissi af hverju þessi tillaga kom fram í beinu framhaldi — í rauninni ekki einu sinni í framhaldi, eins og hv. þingmaður kom inn á. Hún kom öllum algjörlega í opna skjöldu sem hér starfa og ef ég vissi af hverju hún kom fram væri ég líklega búin að leysa marga hluti því að það er mjög flókið að komast inn í hugarheim framsóknarmanna, held ég, hvað þeir láta sér detta í hug.

Ég sé enga ógn við það að klára þennan samning og ég hef talað fyrir því að það hefði átt að gera. Ég hef líka sagt að ég tel að allir þeir stjórnmálamenn sem koma að þeirri vinnu sem snýr að þessu máli sem og öðrum, hljóti að leggja sig fram um að fá sem besta samninga fyrir sína þjóð. Annað mundu þeir ekki leggja á borð fyrir þjóðina. Ef við rækjum okkur einhvers staðar á það á einhverjum tímapunkti að við teldum að lengra yrði ekki náð og það sem okkur byðist væri óásættanlegt þá legðum við það fyrir þjóðina og segðum um leið: Við teljum þetta ekki innihalda þá hagsmuni sem við þurfum að standa fyrir og gæta.

Auðvitað getum við, eins og hv. þingmaður sagði áðan, diskúterað fram og til baka það sem við teljum og höldum að geti náðst út úr þessu. En ég tek undir með henni að það var engin ógn sem kom fram í þessari skýrslu og kannski ekkert mjög margt til viðbótar við það sem við þegar vissum. Mér finnst ég ekki vita nóg til þess að taka fullmótaða afstöðu frekar en svo margir aðrir. En það var ekkert sem kom fram í skýrslunni sem ógnar því, þannig að ég get eiginlega ekki áttað mig á því af hverju tillagan er lögð fram að öðru leyti en því að (Forseti hringir.) ný ríkisstjórn er með völdin og hún verður að sýna að hún hafi þau.