143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef játað það hér í ræðustól að Evrópusambandið er tilfinningamál fyrir mig, ég er mjög hlynnt aðild að Evrópusambandinu. En Evrópusambandið er hagsmunabandalag, ég mundi samþykkja inngöngu í það til þess að vinna að hagsmunum Íslands. Það er augljóst að ég væri ekki tilbúin til þess að ganga inn í samband sem ynni gegn hagsmunum Íslands. En ég sá ekkert í þessari skýrslu sem ógn. Mér finnst svo vont að með þessari tillögu er verið að færa umræðuna í þann farveg að okkur standi einhver ógn af því að klára viðræðurnar í stað þess að líta á þau tækifæri sem felast í því að klára þær.

Það sem er vandi á Íslandi er að við búum í dreifbýlu landi og dreifbýlið er fámennt og við viljum ekki að á Íslandi verði bara byggð á suðvesturhorninu. En það er þróun sem er yfirvofandi og við þurfum alltaf að vera að vinna gegn. Ég sá í skýrslunni tækifæri fyrir Ísland sem blómstrandi byggð og ekki síður hinar dreifðu byggðir. Ég sá í skýrslunni tækifæri fyrir ungt fólk til þess að njóta sambærilegra gæða og ungt fólk í öðrum velmegunarríkjum. Ég sá í skýrslunni auknar líkur á því að ungt fólk vildi búa hér ef við byggjum við betri efnahagsleg skilyrði (Forseti hringir.) og skilyrði ýmissa atvinnugreina. Getur þingmaðurinn tekið undir að það séu fleiri tækifæri fólgin í því að klára (Forseti hringir.) viðræðurnar en að slíta þeim nú?