143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aldrei þessu vant var mér ekki hlátur í huga þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns, brosti þó í kampinn þegar hann sagði að það væri draumur stjórnarandstöðunnar að afnema verðtrygginguna og ég býst þá við að ríkisstjórninni verði veittur fullur stuðningur í þeim efnum, skiptir engu máli hvort það verður gert við núverandi gjaldmiðil eða einhvern annan.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér er það ferðalag sem hófst hér sumarið 2009 þegar ákveðið var að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Nú kemur fram í skýrslunni sem hv. þingmaður vísaði í að það hafi tekið tvö ár að hefja efnislegar umræður. Það er ótrúlegt í ljósi þess að fullyrt var að viðræðurnar sjálfar mundu taka í mesta lagi 18 mánuði.

Ég spyr hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra sem hélt svo hönduglega á málum: Hvað stóð í vegi fyrir því að hefja efnislega umræðu á öllum þessum tíma?

Mig langar líka að spyrja af því hann minntist á unga bændur. Hann sagði að tollvernd yrði kannski ekki eitt af því sem við mundum fá. Af hverju lá samningsafstaða Íslands ekki fyrir þegar hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra ákvað að setja málið í salt fyrir um ári síðan? Hvað stóð í vegi fyrir því að samningsafstaða Íslands lægi fyrir áður en gert var hlé á umræðunum?