143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:43]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa spurningu og ítreka það sem ég hef áður sagt í ræðustóli að vissulega er tillaga Vinstri grænna ekki mér fullkomlega að skapi og félögum mínum í Bjartri framtíð ekki heldur. Við mundum helst vilja sjá það að við gætum klárað aðildarviðræðurnar og borið þann samning undir þjóðina. En úr því sem komið er og miðað við þann stað sem við erum á núna sé ég hana vissulega sem lausn í málinu og eitthvað sem við værum tilbúin að skoða og fella okkur við.

Svo langaði mig aðeins að klára hugsun mína um stöðu ungs fólks í landinu. Sá raunveruleiki sem blasir við mér og mörgum, held ég, er þessi sýn margra stjórnarþingmanna og ríkisstjórnaraðila, að því er virðist, mér finnst þetta vera ákveðin skilaboð sem er verið að senda mér. Mér finnst verið að senda mér þau skilaboð að ég megi ekki fá upplýsingar og ég megi ekki tengjast umheiminum sem er í kringum mig. Mér finnst það bara ekki boðlegt. Það fær mig virkilega til að hugsa hvort mig langi til að vera hérna áfram næstu sjötíu árin. Það er ekki staða sem mig langar að vera í því hér finnst mér gott að búa þrátt fyrir allt, hér finnst mér gaman að vera og hér vil ég ala upp börnin mín. Ég velti því fyrir mér hvort þeir sem stjórna landinu vilji hafa mig hérna.