143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[13:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín þjóðerniskennd er mjög sterk, en hún er líka þannig að það þýðir ekki að ég vilji loka allt af og fara að stunda einhliða utanríkispólitík, eins og núverandi ríkisstjórn virðist stunda, heldur vil ég að vera á alþjóðavettvangi sem fullur þátttakandi full sjálfstrausts. Það er nefnilega rétt sem hv. þingmaður segir: Við höfum ekkert að óttast vegna þess að við höfum heilmikið fram að færa. Við höfum ekkert að óttast heldur við að þiggja eitthvað til baka. Um það snýst þetta. Um það snýst samstarf. Það að vera alltaf með boxhanskana á lofti til að verja meint sjálfstæði getur líka gengið út í algjörar öfgar og kippt undan okkur hinum sjálfstæðu fótum, ef svo má að orði komast.

Þetta á að vera ískalt hagsmunamat en umræðan verður líka að snúast dálítið um þessa hluti, þ.e. hver viljum við vera á alþjóðavettvangi. Mér finnst það kristallast í og nú ætla ég að gagnrýna núverandi ríkisstjórn sem leggur fram þessa vondu tillögu að mínu mati, umræðu um ómöguleikann þar sem ómöguleikinn er fólginn í því að ríkisstjórn sem styður ekki inngöngu í Evrópusambandið sé fær um að leiða málið til lykta í samningaviðræðum. Mér finnst þessi ríkisstjórn ekki hafa neitt sjálfstraust í því að geta unnið faglega. Hún er algjörlega á þeirri línu, í þeim orðum felst að hún treysti sér eingöngu til að starfa pólitískt og þar með ekki faglega í einstaka málum. Það vekur líka ugg í mínu brjósti gagnvart öðrum málum, ekki aðeins þessum. Ef menn treysta sér ekki til að vera faglegir hér, skipa gott fólk til verka inn í samninganefnd, hvernig getum við treyst þessari ríkisstjórn til að vera fagleg á öðrum sviðum?