143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[14:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessa ósk. Það er sérstaklega mikilvægt á þessum stað í umræðunni að fá hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins hingað inn. Í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í morgun sagði hæstv. heilbrigðisráðherra eitthvað á þá leið að ekki væri enn búið að svíkja kosningaloforðin. Það gefur ákveðin fyrirheit um að eitthvað sé í gangi sem gæti leitt til góðra sátta, bæði við þing og þjóð.

Ég veit að hæstv. forseti er mikill áhugamaður um að hér sé góð samvinna og gott andrúmsloft í þinginu. Ég vænti þess að hann beiti sér fyrir því að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað, ásamt að minnsta kosti formanni Sjálfstæðisflokksins, og þeir fari betur yfir það með okkur. Það gæti leitt til þess að umræðan yrði jafnvel styttri ef hingað inn kæmi eitthvert útspil sem gefið var í skyn að væri í stöðunni í morgun.