143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:08]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið til umræðu þingsályktunartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki. Ég get tekið undir seinni hluta þessarar fyrirsagnar, um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki, en ég get ekki tekið undir fyrri hlutann. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessu aðildarferli og ítreka hér andstöðu mína við þá tillögu að draga umsóknina til baka.

Þar ber margt til. Eitt er það að mér finnst tillagan afskaplega illa fram sett. Hún er eins og plokkfiskur á lélegu veitingahúsi sem er hent framan í gestina og sagt: Étt´ann.

Tillagan er ekki margorð en í athugasemdum er langur kafli sem mér virðist tekinn upp úr gamalli skýrslu. Tillagan getur tæpast byggt á þeirri skýrslu sem Hagfræðistofnun vann og skilaði hér fyrr í vetur.

Það sem er kannski dapurlegast við þetta er að skýrslan sjálf byggist ekki á nokkru einasta hagsmunamati en ég tel eðlilegt að þegar svona stór ákvörðun er tekin liggi fyrir hagsmunamat. Hverjir eru þeir hagsmunir? Þeir eru í raun lífsgrundvöllur okkar í landinu, þ.e. atvinna okkar sem hér erum og framtíðarinnar. Ef til vill má segja að þegar hagsmunamat er gert og þegar menn spá í framtíðina sjái menn kannski ekki alltaf rétt. Ég er með í höndunum Islands udvikling og økonomiske fremtids betydning frá 1918. Þá var heildarútflutningur landsmanna um 60 þús. tonn. Mér sýnist við fljótan lestur aðallega reiknað með því að flutt sé út smjör og kindakjöt. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.

Ég er í eðli mínu friðarsinni. Það getur vel verið að einhverjum finnist stundum ófriður af mér, en friðarsinni er ég samt. Ég hef dálítið velt fyrir mér þeim styrjöldum sem háðar hafa verið í Evrópu á umliðnum öldum og þeim styrjöldum sem náðu til Íslands. Í fljótu bragði man ég eftir því að gerðar hafi verið tvær loftárásir á Ísland, önnur á bæ sem gat kannski talist hernaðarlega mikilvægur á þeim tíma, Seyðisfjörð, en hin var á Breiðdalsvík. Sú árás var hreint grimmdarverk.

Síðan 1945 hefur ríkt friður í Evrópu, a.m.k. í henni vestanverðri. Grundvöllur þess friðar er tvenns konar, annars vegar NATO og hins vegar Evrópusambandið í ýmsum myndum, frá Kol- og stálsambandinu, Efnahagsbandalaginu o.s.frv. Ég tel að það hafi verið mikill áfangi í friðarviðleitni, þar sem aldrei voru gerðir friðarsamningar, að stofna Sambandslýðveldið Þýskaland í friði. Ég hef margoft sagt þegar ég hef verið spurður hvort aldrei hafi gerst neitt skemmtilegt í mínu lífi: Jú, það gerðist einu sinni eitt afskaplega skemmtilegt. Það var þegar ég átti dag með dr. Max Adenauer, syni kanslarans, og ég hef oft hugsað til hlýjunnar í nánd þess manns. Því miður lifði ég það ekki að hitta kanslarann sjálfan sem hefði kannski verið mikil upplifun. (ÁÞS: Eina skiptið sem var skemmtilegt?) Ja, það hafa ekki alltaf verið gleðidagar á þingi, skal ég segja þér, hv. þingmaður.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að frumherjar Evrópusambandsins voru friðarsinnar og töldu eðlilegt að reyna að stofna til friðar með öðrum hætti en áður þar sem gerðir voru þvingunarsamningar, friðarsamningar sem ekki voru efndir. Eins og ég sagði áðan var NATO stofnað um svipað leyti og Kol- og stálsambandið fór af stað. Þá var raunveruleg vá fyrir dyrum, vá þess efnis að Sovétríkin mundu gera innrás í Vestur-Evrópu. Henni var afstýrt. Það sem gerðist hins vegar þegar Sovétríkin liðuðust í sundur var að nánast öll lönd Austur-Evrópu gengu í NATO alveg eins og þau hafa gengið í Evrópusambandið.

Nokkrir nýbúar frá þessum slóðum hafa komið að máli við mig vegna þessarar afstöðu sem þeir hafa frétt af og sagt að þjóðir þeirra og lönd hafi fyrst fengið fullt frelsi þegar þau gengu í Evrópusambandið og NATO.

Ég ítreka enn og aftur að ég er Evrópumaður og ég fæ ekki svör við því í þessari skýrslu af hverju ætti að draga umsóknina til baka. Ekkert er fjallað um stöðu samninga og þeir þrír málaflokkar sem hafa verið taldir skipta sköpum, landbúnaður og byggðamál, sjávarútvegur og gjaldmiðilsmál, eru ekki ræddir í þessari skýrslu svo neinu nemi, a.m.k. ekki samningsafstaða Íslands. Um hana spurði ég en fékk ekki svör sem hægt er að birta. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra í fyrirspurn fyrr í vetur og fékk um það svör sem ekki er hægt að birta. Ég hef hins vegar átt viðræður við aðila sem ég treysti, innlenda sem erlenda, og þeir telja að sjávarútvegurinn verði ekki sú fyrirstaða sem allir hafa talað um.

Að vísu bar það til í gær og í dag að við vorum ekki sammála Evrópusambandinu út af samningi sem gerður hefur verið um makríl. Það kann að vera að ekki séu alltaf sættir í hjónaböndum en þá þarf að vinna úr því. Við höfum byggt upp sjálfbærar veiðar á stofnum innan okkar lögsögu og reynt að koma í veg fyrir offjárfestingu. Íslenskur sjávarútvegur hefur hér um bil alltaf lifað án niðurgreiðslna ef frá eru taldar gengisfellingar sem hafa verið gerðar til hagsbóta fyrir greinina. Síðast en ekki síst höfum við komist hjá brottkasti.

Í landbúnaðarmálum er mér alveg óskiljanlegt hver ógnin ætti að vera. Töluverð ógn beinist nú þegar að landbúnaði sem er um það bil 0,5% af landsframleiðslu. Þeir sem hafa til þess burði ættu að skoða hvernig afkoman er í þeirri grein því að hún þarf líklega að taka sig taki hvar sem hún lendir.

Ég ætla að eyða síðustu mínútunum sem ég hef í að segja að þetta kemur kannski ekki á óvart vegna þess afstaða Framsóknarflokksins til alþjóðlegrar samvinnu hefur ekki alltaf verið upp á marga fiska. Framsóknarflokkurinn er í meginatriðum einangrunarhyggjuflokkur … (Utanrrh.: Þetta er rangt, Vilhjálmur.) (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) (Utanrrh.: Skammastu þín.)

(Forseti (ValG): Ég bið þingmenn að virða …)

Við getum rifjað upp afstöðu Framsóknarflokksins í þeim efnum sem ég hef nokkurn veginn í kollinum, t.d. afstöðu Framsóknarflokksins til EFTA á sínum tíma, ég er með hana alveg í kollinum.

Hvað um það, það er ýmislegt fleira sem ég þarf að ræða hérna en ég var truflaður í miðjum klíðum og tíminn er að renna út.

Ég ætla aðeins að segja að fullveldi er ekki bara það að standa einn og sjálfur heldur er fullveldi líka það að geta samið um framtíð sína. Engin þjóð er eyland og við þurfum að geta samið okkur til réttlætis. Við höfum sótt margt gott til útlanda. Ég segi eins og Jón Hreggviðsson sagði einu sinni þegar honum var ofboðið: Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti. (Forseti hringir.)

Ég hef lokið máli mínu.