143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og jafnframt fagna því að stjórnarsinni komi hér í ræðustól og ræði þessa þingsályktunartillögu sem hér er rætt um — þó að ekki eigi endilega að beina því til sjálfstæðismanna, þeir hafa þó fáir tekið þátt en hrópandi er afstaða framsóknarmanna sem láta ekki sjá sig í þessari umræðu.

Hv. þingmaður lýsti þessari þingsályktunartillögu sem lélegum plokkfiski á lélegu veitingahúsi. Það eru kannski orð að sönnu en mig langar í þessu örstutta andsvari að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í tvo þætti sem stjórnarsinnar leggja hvað mesta áherslu á, og telja að þar sé ekki hægt að ná neinum samningum eða sérlausnum, þ.e. út í landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál. Hv. þingmaður nefndi reyndar að sjávarútvegsmál væru ekki fyrirstaða. Vonandi er það svo og ég minni á kaflann í skýrslunni um breytta sjávarútvegsstefnu sem kemur mjög að stefnu Íslendinga, m.a. um sjálfbærar veiðar o.s.frv. þó að tíðindi dagsins skjóti skökku við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í landbúnaðarmál. Skýtur það ekki skökku við og er ekki einhvers staðar holrúm í málflutningi þeirra sem óttast innflutning á landbúnaðarvörum að staðan er sú að lengi hefur verið fluttur inn kjúklingur? Sagt er að þeir séu stundum þíddir upp og settir í einhverjar kjúklingabollur. Nú er staðan sú að ekki er til nautahakk í landinu þannig að það kemur frá Spáni en hér á verði sem er ekkert lægra en á innlendu nautahakki. Ofurtollar eru lagðir á til verndar þessum innflutningi. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins betur út í þá einangrunarstefnu sem hann nefndi áðan sem ákveðinn flokkur hefur. Er þetta ekki gott dæmi um einangrunarstefnuna?