143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns tel ég sjálfsagt að málið fái eðlilega þinglega meðferð. Hins vegar tel ég líka að komið hafi fram í umræðunni ýmsar vísbendingar frá bæði hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum stjórnarflokkanna um að þessir flokkar séu reiðubúnir að skoða ýmsar leiðir í tengslum við þá þinglegu meðferð, þ.e. að það sé ekki endilega sú hugsun að fara eigi með þetta mál óbreytt í gegn heldur eigi að taka tillit til annarra tillagna sem komið hafa fram og skoða leiðir til þess að ná þar einhverri niðurstöðu sem endurspeglar þá meira vilja alls þingsins. Ég lít því þannig á málið og tek fullt mark á þeim orðum sem hér hafa fallið.

Hvað varðar undirbúning ákvarðana vil ég fyrst segja það að mér finnst mikilvægt, af því að ég nefndi það áðan og ítreka það hér að ég tel að það að undirbúa ákvarðanir betur sé eitthvað sem við getum öll tekið til okkar og öll lært af. Ég tel líka eftir að hafa setið í ríkisstjórn sem var að hluta í minni hluta á því kjörtímabili, að oft sé hægt að ná lendingu um stór mál með slíku samráði, það er hægt. Við höfum haft ákveðinn meirihlutakúltúr í stjórnmálunum sem er ekkert endilega hollur fyrir umræðuhefðina og það að hafa setið í minnihlutaríkisstjórn held ég að sé hverjum manni nokkuð holl lífsreynsla til þess að fara í slíka vinnu.

Það er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem það gerist að ríkisstjórn sé klofin í afstöðu sinni til mála. Ég nefni fordæmið frá Noregi þegar minnihlutastjórn Verkakmannaflokksins sótti um aðild að Evrópusambandinu og Verkamannaflokkurinn var klofinn í afstöðu sinni til málsins. Ég tel ekki endilega að það skapi ómöguleika, eins og hér hefur komið fram í umræðunni. Það skapar þó ákveðna kröfu á hendur þeim stjórnmálamönnum sem inn í slíkt verkefni ganga hvernig nákvæmlega þeir geta unnið að góðum samningi, eins og í þessu tilfelli, (Forseti hringir.) ef maður hefur mjög sterkar efasemdir um eðli sjálfs samstarfsins.