143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða málið í ágætum friði. Við höfum staðið hér, rætt málið hvert við annað, stjórnarandstaðan meira og minna, en ríkisstjórnin hefur sýnt okkur virðingarleysi og skeytingarleysi með því að vera ekki hér til andsvara eða til viðræðu um málið. Við höfum látið okkur hafa það. En tökum eftir því að það er takmarkaður ræðutími í umræðunni. Eingöngu er hægt að tala einu sinni í tíu mínútur og einu sinni í fimm mínútur. Þess vegna skil ég ekki af hverju við erum að fá kl. hálfsex í kvöld SMS um það að hér eigi að fara fram atkvæðagreiðsla um lengd þingfundar. Vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að fara að sýna vald sitt. Hún ætlar ekki að taka þátt í umræðu, hún ætlar bara að sýna vald sitt, keyra mál með tuddaskap í gegnum þingið, með tuddaskap, virðulegi forseti, og þetta er skýrt merki um það.

Ef menn vilja vinna heiðarlega, koma vel fram við samþingmenn sína (Forseti hringir.) þá hefðu menn gert það eftir að þingfundur hófst í morgun (Forseti hringir.) en ekki rétt áður en kvöldfundur brestur á. (Forseti hringir.) Það er virðingarleysi gagnvart þinginu og fjölskyldum okkar, virðulegi forseti.