143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við höfum svo sannarlega verið í efnislegri umræðu en jafnframt kallað eftir hæstv. ráðherrum. Sérstaklega höfum við kallað eftir hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Kristjáni Þór Júlíussyni og Illuga Gunnarssyni, sem lofuðu öll kjósendum sínum fyrir kosningar að um framhald aðildarviðræðna yrði ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef líka óskað eftir nánari skýringum frá hæstv. forsætisráðherra um þessi meintu orð Evrópusambandsins um að nauðsynlegt sé að fá afstöðu sem allra fyrst, sem er þvert á það sem fram kemur í útgefnum gögnum á síðum Evrópusambandsins. Er það þá rétt skilið hjá mér, herra forseti, að fyrst við höfum ekki staðið hér í fundarstjórnarumræðu dagana langa þá hafi ekki þótt ástæða til að hlusta á okkur? Það er þá einhver lexía sem við tökum með okkur í minni hlutanum.