143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp þessa atburðarás. Í stuttu máli er svarið við spurningunni það að við erum enn í þessum sporum. Mín sýn hefur verið sú að sú vinna þyrfti að fara fram í utanríkismálanefnd, að þar ætti að fara yfir þau sjónarmið sem komið hafa fram. Ég skal segja alveg eins og er að það kom mér á óvart hversu hörð viðbrögðin urðu við tillögu utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar sem ég studdi hér. Það kom mér á óvart hversu sterkt ákallið er um aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun í þessum efnum. Þar vísa ég í fyrsta lagi til niðurstöðu síðustu þingkosninga, ég vísa til skoðanakannana sem sýna til dæmis að um 90% flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum hafa verið andvígir inngöngu í Evrópusambandið. Ég vísa til þess að meiri hluti landsmanna hefur aldrei á nokkrum tímapunkti viljað ganga í Evrópusambandið o.s.frv. Það hefur komið mér á óvart hversu mikil viðbrögð hafa verið í þjóðfélaginu, (Forseti hringir.) en kannski hefði maður ekki átt að láta það koma sér á óvart í ljósi þess hvernig við höfum verið að þróa og þroska lýðræðið undanfarinn áratug. Ég tel að við eigum að læra af þessum viðbrögðum og þessi vinna þarf að eiga sér stað í nefndinni.