143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar sem var skýrt. Það sem ég vil hins vegar velta upp í framhaldinu er þetta: Ef sú leið yrði farin sem mér fannst hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, tala um, að stjórnarskrárbreyting yrði ákveðin í þeirri þröngu merkingu að hún heimilaði takmarkað framsal eða á afmörkuðu vel skilgreindu og afmörkuðu sviði, eins og það er gjarnan kallað og stjórnspekingar hafa sagt að er heimilt ef þannig er búið um hnútana, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að vel skilgreint svið, jafnvel afmarkað, sé býsna víðfemt. Það getur verið mjög víðfemt þó að það sé vel skilgreint og afmarkað.

Þá er spurningin: Ef stjórnarskrárbreyting væri með einhverju þrengra formi, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar er að tala um, mundum við ekki samt lenda í vanda með EES-samninginn áfram? Verðum við ekki að gera ráð fyrir því að hann muni áfram þróast þannig að það komi fleiri og fleiri tilskipanir sem við munum lenda í vandræðum með, jafnvel þó að þær verði vel skilgreindar hver fyrir sig? Ef framsalsheimildin í stjórnarskránni er mjög þröng þá er hún að minnsta kosti komin inn í stjórnarskrána, en þröng. Er þá ekki hætt við að menn muni eftir sem áður lenda á kant við stjórnarskrána þegar fram líða stundir með EES-samninginn?