143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að fara stuttlega og betur yfir þau mál sem hafa verið til umræðu undir hið síðasta. Þau varða stjórnskipunarmálin og hvernig meðferð utanríkismála er fyrir komið í stjórnarskránni og þau álitamál sem hérna komu upp, m.a. vegna orðaskipta hv. þingmanna Össurar Skarphéðinssonar og Birgis Ármannssonar.

Í mínum huga skiptir gríðarlega miklu máli að stjórnarskráin sé skýr að því er varðar meðferð utanríkismála og hvaða valdheimildir stjórnarskrárgjafinn veitir til framsals á ríkisvaldi. Komið hefur fram í umræðunni um EES-samninginn að tilvik hafi komið upp á liðnum árum þar sem við höfum, eins og það er gjarnan orðað, rekist utan í stjórnarskrána og verið að teygja hana og toga og það hefur verið lagt í hendur stjórnskipunarfræðinga í hverju tilfelli fyrir sig að meta hvort stjórnarskráin heimilaði viðkomandi valdframsal eða ekki. Þá hafa menn gjarnan komist að þeirri niðurstöðu að af því að valdframsalið væri á takmörkuðu sviði, vel skilgreint, afmarkað, þá væri það heimilt. Svo sitja menn eftir 20 ár, eins og núna eftir 20 ár með EES-samninginn, og ef menn taka öll lítilvægu atriðin saman er kominn stór pakki sem hefði án nokkurs vafa verið talinn brjóta í bága við stjórnarskrána ef hann hefði verið lagður fram í einu lagi.

Þess vegna er það mín skoðun að þau mál þurfi að vera afar skýr í stjórnarskránni og eigi ekki að vera lögð undir mat í hverju og einu tilfelli um hvort rými sé í stjórnarskránni fyrir það eða ekki.

Í samfélagi nútímans er þátttaka í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsum toga óhjákvæmileg og hún er eftirsóknarverð, tel ég. Það er engum vafa undirorpið í mínum huga að þátttaka í alþjóðastarfi felur í sér að fullvalda ríki deilir fullveldi sínu á vissum sviðum með öðrum, fær síðan eitthvað í staðinn af fullveldi annarra. Það er ekki aðeins í tengslum við EES-samninginn eða ESB-aðild hugsanlega, það er á mörgum öðrum sviðum. Ég nefndi í fyrri ræðu minni aðildina að Sameinuðu þjóðunum þar sem aðildarríkin deila fullveldi sínu og afhenda öryggisráði Sameinuðu þjóðanna umtalsverðar valdheimildir sem þau geta ekki kallað aftur öðruvísi en ganga úr hinum Sameinuðu þjóðum og eru bundin af því. Ég tel því að þeim málum þurfi að vera komið skilmerkilega fyrir í stjórnarskránni.

Þess vegna var það mín afstaða þegar við vorum að ræða stjórnarskrárbreytingar og utanríkiskaflann á síðasta þingi að það væri langskynsamlegast að setja afdráttarlausa reglu í stjórnarskrána sem segði einfaldlega: Í hvert skipti sem gerðir eru þjóðréttarsamningar innan þess ramma sem stjórnarskráin heimilar, sem fela í sér framsal ríkisvalds skal það skilgreint í viðkomandi lögum og þarf aukinn meiri hluta á Alþingi, tvo þriðju, þá er það heimilt. Þá þarf ekki neina skoðun á því í hverju einstöku tilfelli hvort við séum að teygja stjórnarskrána heldur eru sett lög og þau þurfa aukinn meiri hluta.

Þá kem ég að því sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi áðan að umræðan hefði ekki snúist um valdheimildir til dæmis sem lytu að aðild að Evrópusambandinu, en gert var ráð fyrir því að í síðustu efnisgrein 111. gr. í því stjórnarskrárfrumvarpi kæmi setning sem hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Við gerð þjóðréttarsamninga um aðild Íslands að alþjóðastofnunum sem fara með yfirþjóðlegt vald og falla undir 1.–3. mgr. skulu heimildarlög borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.“

Þessi klásúla í greininni átti að taka til aðild að alþjóðastofnunum sem færu með yfirþjóðlegt vald og það er óumdeilt að Evrópusambandið er þannig stofnun.

Það er því ekki rétt að það hafi ekki verið rætt í þeirri umræðu. Það er um tvær aðferðir að ræða, annars vegar er um að ræða aðild að alþjóðastofnunum sem fær yfirþjóðlegt vald, þá skyldi skilyrðislaust vera þjóðaratkvæðagreiðsla sem væri bindandi samkvæmt stjórnarskrá, ef um væri að ræða takmarkaðra framsal á ríkisvaldi (Forseti hringir.) þyrfti aukinn meiri hluta, tvo þriðju, á Alþingi. Þetta tel ég vera mjög (Forseti hringir.) skýra afgreiðslu á málinu (Forseti hringir.) þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa og heimildirnar (Forseti hringir.) augljósar.