143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[15:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að hingað til lands hefur orðið mikil fjölgun ferðamanna á undanförnum árum. Er staðan orðin sú að ferðaþjónustan er ein af okkar grundvallaratvinnugreinum og tekjur af henni fara sívaxandi. Með aukningu og fjölgun ferðamanna er líka meiri ásókn og ágengni á fjölsótta ferðamannastaði.

Þess vegna hefur verið mikil umræða um uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar til að mæta þessari fjölgun ferðamanna. Mikið hefur verið rætt um það og mörg sjónarmið verið uppi. Iðnaðarráðherra hefur til dæmis rætt um ýmis form af gjaldtöku á ferðamannastaði. Umhverfisráðherra ræddi í fyrirspurnatíma fyrir skemmstu um mikilvægi almannaréttarins í íslenskri löggjöf, það að Íslendingar geti farið um eigið land og nú síðast blandast fjármálaráðherra inn í þetta mál með umræðu um það hvort taka eigi virðisaukaskatt af aðgöngumiðum sem seldir eru að Geysi. Þetta mál snertir bersýnilega fleiri ráðuneyti og þess vegna hef ég kosið að beina fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra.

Hér hafa verið uppi hugmyndir um að taka upp einhvers konar náttúrupassa, það hafa verið hugmyndir um gistináttagjald og brottfarargjald. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þetta mál hafi í heild sinni verið til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar og hvort ríkisstjórn hans hafi mótað sér einhverja stefnu og hver hún þá sé í þessu máli. Ég óttast að ef við förum ekki að grípa til einhverra ráðstafana og setja einhvern ramma um þetta mál missum við tökin á því og það tel ég að væri skaðlegt fyrir okkur öll.

Mig langar að heyra viðhorf hæstv. forsætisráðherra til þess hvort málið sé á borðum ríkisstjórnarinnar, hvað þar sé verið að ræða og hvort einhverrar augljósrar stefnu sé að vænta í málinu.