143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er komið eitt frumvarp sem er þeirrar gerðar sem sumir þingmenn hafa haft á orði að sé eins konar afgreiðslumál, að þingið taki við frumvörpum sem falla undir EES-samninginn og innleiði án þess að kafa mikið ofan í hvað þar er á bak við, það sé bara stimplað. En það er einmitt ástæða til þess að staldra aðeins við í ljósi þeirra umræðna sem verið hafa um mótun Evrópustefnu núverandi ríkisstjórnar sem birtist m.a. í því að beita sér meira á vettvangi EES-samningsins og reyna að hafa meira um það að segja hvað þaðan kemur. Það er þá kannski líka tilefni fyrir okkur hér í þinginu að gera það.

Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að það er ekki endilega mjög upplýsandi að lesa þetta stutta frumvarp sem lætur lítið yfir sér og stutta greinargerð eða athugasemdir, maður verður ekki endilega mikils vísari við það eitt og sér. En þar eru atriði sem mig langar til að inna hv. þingmann eftir, kannski getur hann svalað forvitni minni að einhverju leyti.

Í fyrsta lagi er sagt í almennum inngangi við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Þar sem efnislegar breytingar eru litlar og ekki íþyngjandi gagnvart hagsmunaaðilum var ekki talin þörf á sérstöku samráði við gerð þess.“

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að það sé þá a.m.k. ekki leitað til þeirra aðila sem voru á auglýsingunni frá 2011 um tilnefnda aðila.

Mig langar þá líka að spyrja um hvort það sé einhver sérstök ástæða til að taka innanríkisráðuneytið út úr þessu, af því að það er bara eitt af nokkrum stjórnvöldum sem hafa þessa heimild samkvæmt gildandi lögum. Er þá ekki tilefnislaust (Forseti hringir.) að taka innanríkisráðuneytið út úr þeirri upptalningu?