143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég segi já með mikilli gleði við þessu máli. Hins vegar er ljóst að hér er löng og ströng ferð á miðri leið. Náttúruverndarar hafa tekið slaginn utan húss og innan. Þeir höfundar hvítbókarinnar sem lögðu á sig mikla vinnu eiga þakkir skildar. Umhverfis- og samgöngunefnd síðasta kjörtímabils undir stjórn Marðar Árnasonar í þessu flókna máli lagði mikið af mörkum til að ná sátt.

Hv. núverandi umhverfis- og samgöngunefnd hefur unnið góða vinnu. Það er gríðarlega mikilvægt að þeim anda verði haldið áfram en ekki er síður mikilvægt fyrir okkur öll sem aðhyllumst náttúruvernd á Íslandi að vera vakandi fyrir því að það eru stríðsyfirlýsingar í gangi hér frá degi til dags.

Orkustofnun kemur hér fram með algjörlega fordæmalausar tillögur og leggur fyrir rammaáætlun 3 þar sem allt er í uppnámi. (Forseti hringir.) Það færi vel á því að sá andi (Forseti hringir.) sem verið hefur í umhverfis- og samgöngunefnd rataði inn til Orkustofnunar (Forseti hringir.) og í samskipti Orkustofnunar við verkefnisstjórn rammaáætlunar 3. (Gripið fram í.) (SII: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.]