143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

skóli án aðgreiningar.

[16:37]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu og vil taka undir með hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér. Skóli án aðgreiningar er mikilvægur hluti af skólakerfi okkar og er erfitt að aðskilja frá hugtakinu „einstaklingsmiðað nám“, sem er grunnurinn að skólanum okkar. Skólakerfið er risastórt, þar starfa þúsundir kennara, þar eru hundruð skóla og tugþúsundir nemenda, en á endanum er einingin í skólakerfinu alltaf nemandinn og kannski kennarinn, eða fyrst og fremst nemandinn því að skólakerfið er fyrir einstaklinginn.

Ég hjó eftir því í orðum hv. málshefjanda að hún talaði um nemendur sem ekki falla að norminu. Í raun og veru er hugsunin á bak við einstaklingsmiðað nám að enginn nemandi falli að norminu, að normið stýri okkur ekki, en auðvitað er það mikilvægt tæki fyrir kerfið. Skóli án aðgreiningar hefur þróast þannig að við bjóðum upp á nám án aðgreiningar í heimaskólum en á sama tíma eru reknir sérskólar og sérdeildir sem er ákveðið val á meðan skólakerfið aðlagast alltaf meira og meira einstaklingsmiðuðu námi og er skóli án aðgreiningar stuðningur við þá hugmyndafræði.

Ég held að mikilvægt sé að við opnum skólakerfið enn meira og vil aftur vitna í hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem talaði um mikilvægi aðkomu foreldra. Það er mikilvægt að við hættum að líta á skólann sem lokaða stofnun sem tekur ábyrgð á börnunum og námi þeirra og lítum á hann sem hluta af (Forseti hringir.) mennta- og uppeldiskerfi þar sem foreldrarnir eru ríkur og virkur þáttur. Ég held að foreldrar nútímans vilji taka þátt í þannig starfi.