143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

vetrarþjónusta Vegagerðarinnar.

367. mál
[18:17]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni. Ég treysti því og vona, og það mun ekki standa á þeirri sem hér stendur að tryggja það, að samgöngumálin fái aukinn forgang og njóti þeirrar sérstöðu sem þau eiga að njóta í aðgerðum ríkisvaldsins. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og þá er ég ekki endilega að tala um ákveðna grunnþjónustu sem við viljum að ríkið komi að, að þegar kemur að innviðauppbyggingu sé fátt mikilvægara en treysta það og tryggja að fólk komist leiðar sinnar með þeim samgöngukostum sem við höfum upp á að bjóða.

Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni sem nefndi áðan að þörfin fyrir slíka þjónustu væri meiri í dag en oft áður og kröfurnar eðlilega meiri. Það eigum við að skilja og sýna því virðingu.

Hvað varðar það sem ég nefndi í svari mínu áðan og tveir hv. þingmenn hafa gert að umtalsefni vil ég að það komi alveg skýrt fram að umræðan hefur verið dálítið mikið þannig að það hafi verið skorið niður á undanförnum árum í vetrarþjónustu sérstaklega og ég var að árétta að það er ekki rétt. Það er að vísu alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að það hefur ekki verið aukning en það er heldur ekki sanngjarnt að halda því fram að það hafi verið sérstakur niðurskurður til þessara verkefna. Það hefur verið reynt að halda í horfinu og það hefur verið gert.

Þegar við tölum um aukningu á næstu tveimur árum erum við að tala um það fjármagn sem þarf að bæta í samgönguáætlun til að samgönguáætlun haldi. Eins og þingheimur veit er það fjármagn ekki í samgönguáætlun núna sem hefði átt að vera þar á þessu ári. Til að bæta það upp þurfum við að bæta því fjármagni inn á árin 2015 og 2016, til að halda úti samgönguáætlun og geta sagt að samgönguáætlun hafi haldið. Eins og kemur fram í áætluninni er viðmiðið að því fjármagni verði forgangsraðað, bæði í viðhald og vetrarþjónustu.