143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[15:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram og ég ætla að í meðförum nefndar muni þau mál sem á einhvern hátt þarfnast skýringar fá skýringu. Ég ætla þó að flest meginatriði málsins liggi nokkuð ljós fyrir.

Ef ég á að grípa um það sem ég tel að við hljótum öll að vera sammála um er það það að miklu varðar að fyrirkomulag þessara mála fái fastari og skýrari umgjörð sem fyrst. Samkomulagið sem gert var 2011, sem var skynsamlegt að mínu mati og rétt aðgerð, var tímabundið og þessi lög eða þetta frumvarp er til að undirbyggja að við getum haldið áfram slíku samkomulagi. Þetta getur þó ekki verið hin varanlega staða málsins, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig ákveðin sveitarfélög, t.d. Reykjavíkurborg, hafa kosið að túlka samkomulagið. Ég er ósammála þeirri túlkun og það kom skýrt fram í umræðunum áðan að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, er sammála mér hvað það varðar, að sú túlkun sem lá fyrir og hugsun á samkomulaginu í upphafi var aldrei af hálfu ríkisins að einstök sveitarfélög gætu eða ættu þar með að draga til baka eða verulega úr framlagi sínu til verkefnisins. Ég vona því að sú afstaða verði endurskoðuð hjá til dæmis Reykjavíkurborg og borgin komi með myndarlegt framlag til að styðja við skólana, það veitir ekki af.

Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er sú sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson reifaði ágætlega og mér fannst hv. þingmaður svara því ágætlega hvernig hann vildi nálgast þessa umræðu og geri enga athugasemd við það. Spurning er: Hvar á þetta verkefni með réttu heima? Það eru vissulega kostir og gallar í þessu máli. Það eru kostir við að hafa það hjá sveitarfélögunum, og við þekkjum að ýmis sveitarfélög hafa áhuga á því að taka yfir framhaldsskólastigið í skólastarfinu almennt, en það eru líka augljósir gallar. Gallarnir koma meðal annars fram í þeim vandamálum sem við höfum verið að fást við hér, sem til að mynda birtast í því að einn aðili fer með málaflokkinn og annar greiði til hans að meginstofni til.

Það er að mínu mati alveg ljóst að við getum ekki og munum ekki leggja fram núna á vorþingi nýtt frumvarp um tónlistarskólana, en vonandi getum við gert það næsta haust. Það hefur mikil vinna verið unnin hvað það frumvarp varðar en þar skiptir máli, og reyndar verulegu, að góður samhljómur sé á milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um það hvernig eigi að halda á þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta mál fái ágætan framgang hér, fari til nefndar eftir þessa umræðu og að okkur takist að ljúka því þannig að hægt sé í það minnsta að tryggja þennan samstarfsgrundvöll á samningstímanum á milli ríkis og sveitarfélaga um þetta mikilvæga mál.