143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnast nú þessar umræður hálfkúnstugar um óskir okkar um gesti og hvernig þær voru afgreiddar, að þær fari hér fram í ræðustól Alþingis. Ég ítreka að það var ekki ég sem hóf þá umræðu hér. En úr því að við ætlum að halda henni áfram finnst mér rétt að fram komi að það er rétt að þessar beiðnir voru lagðar fram og síðan þegar sett var fram gagnrýni á tiltekinn hluta þessara beiðna lagði ég sérstaka áherslu á að fá ASÍ inn, en þá var því eigi að síður hafnað, bara svo því sé öllu haldið til haga úr því að við ætlum að fara yfir þessa umræðu hér í ræðustóli Alþingis, sem mér finnst raunar algjör óþarfi.

Ég þarf ekkert að segja meira um afstöðu mína, hún liggur algjörlega fyrir. Þar erum við formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar ekki sammála. En afstaða mín liggur algjörlega skýr fyrir.