143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mestu hagsmunina í þessu felast í samfélaginu sjálfu í Eyjum, ekki efnahagslegum þáttum málsins. Það gengur ekki að fólk sé einangrað eða lokað af. Það býr á eyju. Þetta eru engar venjulegar aðstæður. Þetta er eyja. Menn hlaupa ekkert annað.

Þetta er nánast eins og að loka menn í gæsluvarðhaldi, þetta eru slíkir hagsmunir. Þetta er óvenjulegt að því leytinu til. Þess vegna dugar yfirvinnubann til að raska samfélaginu svo að almannahagsmunir eru í húfi. Að því leyti er þetta ólíkt mörgu öðru.

Ég er ekki fyrsti maður til að vilja takmarka stjórnarskrárvarinn rétt fólks og hef oft áður gert athugasemdir við það. Það þarf mikið til í mínum huga en þegar svo er komið að menn eru einfaldlega lokaðir inni og komast ekki er eðlilegt að grípa inn í þær aðstæður. Margt getur komið upp á og gerir það eflaust þegar verkfallið er orðið svona langt.