143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

ofnotkun og förgun umbúða.

[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að reyna að efla nýsköpun á því sviði að endurvinna, endurnýta allt sorp, þar með talið plast. Þarna gildir oft: því meira magn því betra og hagkvæmara. Í mörgum tilvikum er mikið af því rusli sem endurnýja þarf flutt til útlanda, hversu skynsamlegt sem það er nú með tilliti til loftslagsbreytinga og mengunar sem fylgir því að sigla með rusl langar leiðir. En ég held að það væri mjög áhugavert.

Varðandi þau lög og þær reglur og það sem við höfum í dag er ég sammála hv. fyrirspyrjanda um að fara þurfi yfir það. Fyrir þinginu liggur frumvarp um úrgangsmál sem er á margan hátt talsverð breyting frá því sem nú er. Þar eru mörg sjónarmið uppi og það væri mjög gott ef sú umræða sem á sér stað núna í umhverfis- og samgöngunefnd kláraðist sem fyrst og við gætum farið með málið í þingsal og tekið umræðu um það hér. Það eru margar áhugaverðar hugmyndir sem komið hafa fram í umsögnum sem snúa m.a. að sveitarfélögunum og sorpsöfnun og losun, hvort hægt sé að setja með skýrari hætti markmið um það hvernig standa skuli að þessu þannig að sveitarfélögin hafi aðeins frjálsari hendur í þessum málum frekar en að við séum með mjög nákvæma forskrift frá hendi ríkisins um hvernig við eigum að standa að söfnun á þessari tegund af rusli eða annarri og þá einnig förgun.

Ég held að þá muni kvikna nýjar hugmyndir um hvernig hægt sé að gera þetta á skynsamlegan hátt og væntanlega líka að efla nýsköpun og nýhugsun aðila sem sjá tækifæri í að endurnýta sorp á skynsamlegan hátt með ódýrari leiðum en að safna því saman og láta það safnast upp í umhverfinu, sem er bara (Forseti hringir.) ekki ásættanlegt árið 2014.