143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um þessi mál. Það er fjölmargt í þessu máli sem að mínu mati þarfnast sérstakrar skoðunar en það er eitt atriði sem mér er hugleikið, vil heyra viðhorf hv. þingmanns til og hvernig hann skilur.

Í þessu frumvarpi er verið að búa til ákveðna umgjörð. Burt séð frá sjónarmiði manna um hana er búin til umgjörð um leiðréttingu á höfuðstól lána. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til þeirra sem voru með lán á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, líka til þeirra sem hafa af einhverjum ástæðum losað við sig við þessi lán, hugsanlega borgað þau upp, selt eignirnar sínar, flutt úr landi. Aðferðafræðin er sú að menn þurfa að vera með búsetu hér á landi og annaðhvort með lánin áfram í gangi eða að minnsta kosti í launavinnu hér þannig að þeir eigi persónuafslátt til að geta notið þess ávinnings sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Nú vitum við að í kjölfar efnahagshrunsins flutti hópur fólks af ýmsum ástæðum, m.a. efnahagslegum, úr landi, seldi eignir sínar en á þennan rétt samkvæmt forskrift frumvarpsins. Ég skil þetta frumvarp þannig eins og ríkisstjórnin býr það út að það eigi að svipta þetta fólk þeim rétti, það eigi beinlínis að taka þá fjármuni af fólkinu. Ég hef miklar efasemdir um að þessi aðferðafræði standist jafnræðisregluna. Hér er auðvitað ekki um mörg dæmi að ræða ef einhver (Forseti hringir.) og þetta geta aldrei verið stórar upphæðir í heildina. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að það verði farið rækilega í (Forseti hringir.) saumana á þessu atriði í hv. þingnefnd?